Viðskipti innlent

Bjóða 119 milljarða króna

Baugur hefur tryggt sér fjármögnun og gert tilboð í bresku verslunarkeðjuna Somerfield. Tilboðið hljóðar upp á 190 pens á hlut eða 119 milljarða króna. Heildarfjármögnun kaupanna með skuldum er um 140 milljarðar króna. Forsvarsmenn Baugs hafa ekki viljað tjá sig um tilboðið, en það er á frumstigi. Stjórn Somerfield hefur áður hafnað tilboði frá fjárfestum en tilboð Baugs er mun hærra en fyrri tilboð. Líkur eru taldar góðar á að tilboðinu verði tekið. Breskir fjölmiðlar fengu pata af tilboðinu og í framhaldinu tilkynnti stjórn Somerfield að tilboð hefði borist frá Baugi. Baugur mun á föstudag fá lyklavöldin í Big Food Group sem félagið keypti með íslenskum fjárfestum og fjármögnun Bank of Scotland, KB banka og Landsbankans. Gera má ráð fyrir að sömu aðilar komi að þessum kaupum ef af verður. Somerfield rekur yfir 1200 verslanir á Bretlandseyjum undir merkjum Somerfield og Kwik Save. Félagið er fjárhagslega sterkara en Big Food Group og því auðveldara að fjármagna kaupin. Velta félagsins er um 530 milljarðar króna. Verði af kaupunum mun velta fyrirtækja í eigu Baugs verða ríflega ein og hálf landsframleiðsla Íslendinga eða hátt í 1.400 milljarðar króna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×