Viðskipti innlent

Hagnaður 416 milljónir

Hagnaður Og fjarskipta var 416 milljónir króna í fyrra en árið áður var félagið rekið með 445 milljóna króna tapi. Tölurnar eru settar fram svo þær séu sambærilegar milli ára þrátt fyrir miklar breytingar í rekstri fyrirtækisins við kaup á fjölmiðlafyrirtækjunum sem áður heyrðu undir hatt Norðurljósa. Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Og fjarskipta, segist ánægður með uppgjörið og bendir sérstaklega á að handbært fé frá rekstrinum í fyrra var tæplega 1,7 milljarðar króna samanborið við 262 milljónir árið áður. Hagnaður fyrirtækisins er undir spám tveggja af þremur greiningardeildum bankanna. Miklar breytingar urðu á rekstrinum á síðasta ári. "Við höfum náð tökum á rekstrarkostnaði og uppbygging síðustu ára er að koma í ljós," segir Eiríkur. Hann telur að árangur af sameiningu fyrirtækjanna sem nú mynda Og fjarskipti sé þegar kominn í ljós. Stjórnendur Og fjarskipta sjá fram á áframhaldandi vöxt á þessu ári. Gert er ráð fyrir að fjarskiptahluti starfseminnar vaxi um tíu prósent en fjölmiðlareksturinn um fimmtán prósent. Ásamt því að reka fjarskiptafyrirtækið Og Vodafone eiga Og fjarskipti fjölmiðlafyrirtækið 365 sem meðal annars gefur út Fréttablaðið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×