Skoðun

Röskva mun sameina námsmenn

Föstudaginn 28. janúar síðastliðinn sleit Stúdentaráð Háskóla Íslands, undir forystu Vöku, samstarfi sínu við námsmannahreyfingarnar BÍSN, INSÍ og SÍNE í lánasjóðsmálum. Röskva harmar samstarfsslitin enda er samstarfið grundvöllur árangurs fyrir stúdenta í lánasjóðsmálum. Enn fremur harmar Röskva viðbrögð Vöku í kjölfar yfirlýsingar hinna námsmannahreyfinganna um samstarfsslitin. Af viðbrögðunum að dæma virðist skilningur núverandi meirihluta í Stúdentaráði á samstarfi vera afar takmarkaður. Í fyrstu gaf Stúdentaráð út þá yfirlýsingu að allt léki í lyndi á milli námsmannahreyfinganna. Daginn eftir lýsti Stúdentaráð því hins vegar yfir að hreyfingarnar væru að snúast á sveif með Röskvu í kosningum til Stúdentaráðs sem standa nú yfir. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur og þykir Röskvu miður að talsmenn ráðsins skildu á slíkan hátt gera lítið úr sjálfstæði hinna hreyfinganna í tilraun til að verja eigin afglöp. Stúdentar gátu svo lesið stríðsfyrirsagnirnar á veggjum skólans sl. föstudag: "Stúdentaráð víkur ekki!" Hvers konar samstarf er það þar sem einn eða fleiri aðilar lýsa því yfir að þeir muni aldrei hvika? Slík yfirlýsing staðfestir skilningsleysi meirihlutans á mikilvægi samstarfsins, sem er megin forsenda kjarabóta lánþega. Eins og staðan er núna er Stúdentaráð Háskóla Íslands því í minnihluta í minnihluta innan stjórnar lánasjóðsins og án fulltrúa í endurskoðunarnefnd sjóðsins! Aldrei hefur staða lánþega við Háskóla Íslands verið eins veik – "staðfesta" Vöku hefur tryggt það. Því má svo velta upp hvaða örðugleikar hafa valdið því að á þessum tímapunkti treysta aðrar námsmannahreyfingar SHÍ ekki lengur til að sitja fyrir sína hönd í stjórn lánasjóðsins. Röskva hefur hins vegar aðrar hugmyndir um samstarf námsmannahreyfinganna. Við vitum að það eru kröfurnar sem fulltrúar nemenda leggja fram í endurskoðunarnefnd sjóðsins sem skipta máli, en ekki frá hvaða námsmannahreyfingu fulltrúarnir koma. Röskva mun ekki gefa eftir í kröfum SHÍ – þvert á móti. Með öflugu samstarfi hreyfinganna eru hagsmunir lánþega við Háskóla Íslands best tryggðir enda er samtakamáttur fjöldans öflugri en veikburða rödd klofins minnihluta. Í dag er fyrri kjördagur í Stúdentaráðskosningum við Háskóla Íslands. Röskva skorar á stúdenta að nýta sér kosningarétt sinn og snúa vörn í sókn! Anna Pála er Stúdentaráðsliði Röskvu og Ásgeir skipar 1. sæti á Stúdentaráðslista Röskvu í ár.



Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×