Viðskipti innlent

Vilja 32 milljarða fyrir Eimskip

Forsvarsmenn Flugleiða voru tilbúnir til að greiða allt að 19 milljarða fyrir eigið fé Eimskipafélagsins og lýstu áhuga sínum á að kaupa skipafélagið. Burðarás móðurfélag Eimskipafélagsins vill samkvæmt heimildum fá um 25 milljarða króna fyrir eigið fé Eimskipafélagsins sem þýðir að heildarverð með skuldum er um 32 milljarðar.  Flugleiðir keyptu á sínum tíma hlut í Eimskipafélaginu og lýstu þá að þeir sæju möguleika á samnýtingu ákveðinna rekstrarþátta félaganna. Sú sýn mun óbreytt, en samkvæmt heimildum eru engin líkindi til þess að þeir séu tilbúnir til að greiða það verð sem eigendur skipafélagsins setja upp. Verðið telst mjög hátt miðað við helstu mælikvarða í rekstri skipafélaga. Afkoma skipafélagsins fyrir afskriftir skatta og fjármagnsliði er áætluð 2,4 milljarðar króna. Verðhugmyndir Burðaráss um Eimskipafélagið er tvöfalt hærri en algengt verð á erlendum skipafélögum. Burðarás sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem áréttað er að fyrirtækið sé ekki til sölu að sinni, þrátt fyrir mikinn áhuga. Félagið gangi nú í gegnum breytingar til að styrkja það í sókn og samkeppni með skráningu í kauphöll sem markmið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×