Viðskipti innlent

Varar við umfangsmiklu eftirliti

Björgólfur Thor Björgólfsson varaði við umfangsmiklum eftirlitsiðnaði í ræðu sinni á Viðskiptaþingi í gær. Hann sagði að kostnaður og fyrirhöfn sem fylgdu skráningu fyrirtækja á markaði drægju úr hvatanum til slíkrar skráningar. "Vantraust og tortryggni búa til fyrirvara, skilyrði, skilmála, eftirlit, tryggingar og annað sem á fullan rétt á sér innan eðlilegra marka, en getur einnig gert út af við hvaða góða samning sem er," sagði Björgólfur Thor. Að mati Björgólfs er hugtakið "útrás" bæði kliskjukennt og merkingarlítið og ber merki um "tvíhyggju eyjaskeggja þar sem okkur er stillt upp gegn þeim. Það alþjóðasamfélag sem við búum í er ekki þannig," sagði hann. Hann telur heppilegra að tala um eðlilega framrás í viðskiptum þegar fyrirtæki leitast við að stækka markaðssvæði sín. Björgólfur nefndi nokkur dæmi um fyrirtæki sem hefðu markað sér þá stefnu snemma að sækja inn á stærri markaði. Að auki nefndi hann að flest íslensku útrásarfyrirtækin hefðu búið við það umhverfi að í þeim réði ferðinni kjölfestufjárfestir. Með öðrum orðum þá væri eignarhaldið ekki dreift. Að mati Björgólfs Thors er of algengt að litið sé á dreift eignarhald sem markmið í sjálfu sér. "Að mínum dómi eru kostir dreifðrar eignaraðildar í hlutafélögum stórlega ofmetnir," sagði hann. Hann segir að dreift eignarhald bjóði heim hættu á að stjórnendur taki sér of mikið vald og nefndi máli sínu til stuðnings að flest þau hneykslismál sem komið hefðu upp í alþjóðlegum stórfyrirtækjum væru í félögum þar sem eignarhald væri mjög dreift. Við slíkar aðstæður væri hlutaféð í raun fé án hirðis. Hann segir þróunina vera í þá átt að fyrirtæki fari af markaði meðal annars vegna umfangsmikilla reglna sem kauphallir setja. Hann segir að sífellt auknar kröfur feli í sér kostnað og séu farnar að fæla fjárfesta frá því að skrá félög á markað. "Þannig verður meiri ávinningur af því að hafa eignir sínar einvörðungu í óskráðum félögum," sagði hann. Þetta er þróun sem Björgólfur Thor kveðst ósáttur við.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×