Viðskipti innlent

Stjórnvöld ýta undir þenslu

Uppsagnir í landvinnslu á Stöðvarfirði og í Þorlákshöfn koma Samtökum atvinnulífsins ekki á óvart. Framlegð landsvinnslunnar hefur lækkað úr níu prósentum 2003 í fjögur prósent nú. Taprekstur sé óumflýjanlegur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í leiðara Ara Edwald, framkvæmdastjóra SA, á vef samtakanna. Sterk króna sem er afleiðing af vaxtahækkunum Seðlabankans hefur dregið úr fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni sem að mati SA hefur þau áhrif að fiskvinnslufyrirtæki eiga tvo kosti: annaðhvort að þreyja þorrann í von um betri tíð eða leggja upp laupana. Ari Edwald gagnrýnir ríkið fyrir að stuðla að þenslu með auknum útlánaheimildum Íbúðalánasjóðs. Samtökin segja að stjórnvöld hafi hunsað ráðgjöf Seðlabankans sem hafi lagt til að sjóðurinn sinni fyrst og fremst afmörkuðu félagslegu hlutverki. Samtök atvinnulífsins taka undir þessi sjónarmið Seðlabankans og telja fyllilega tímabært að endurmeta forsendur þátttöku ríkisins á íbúðalánamarkaði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×