Viðskipti innlent

Viðskiptaþing í dag

Björgólfur Thor Björgólfsson athafnamaður og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra flytja aðalræðurnar á Viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands í dag. Þingið er haldið á Hótel Nordica og er búist við á fjórða hundrað þátttakenda. Á þinginu kynnir Verslunarráð einnig skýrslu þar sem lagðar eru til róttækar breytingar á íslenska skattkerfinu. Í fyrra kynnti Verslunarráð á Viðskiptaþingi tillögur sínar um niðurskurð í opinberum rekstri. Jón Karl Ólafsson, formaður Verslunarráðsins, flytur erindi um nýju skýrsluna en meginstefnan sem þar er boðið felur í sér að allar tekjur séu skattlagðar á sama hátt. Með því telur Verslunarráð að lækka megi skattprósentur og afnema undanþágur. Í hugmyndum Verslunarráðs er gert ráð fyrir að skattar á tekjur einstaklinga og fyrirtækja og virðisaukaskattur séu 15 prósent. Eftir ræður þeirra Jóns Karls, Björgólfs og Halldórs verða pallborðsumræður þar sem þátttakendur Aðalheiður Héðinsdóttir, framkvæmdastjóri Kaffitárs; Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka; Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor HR og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×