Erlent

Íranir gagnrýna Vesturlönd

Íranar skora á Evrópusambandið að taka viðræður um kjarnorkuáætlun Írana alvarlegar. Fulltrúi stjórnarinnar sagði á blaðamannafundi að Íranar hefðu slegið á frest áætlunum sínum um að auðga úran, en það er forsenda framleiðslu kjarnorkuvopna. Evrópusambandið hefur þrýst mjög á Íran að hætta við kjarnorkuáætlun sína og hefur boðist til að láta styðja Írana fjárhagslega og tæknilega ef þeir verða við þeirri kröfu. Stjórnvöld í Íran harðneita að markmið kjarnorkurannsókna þeirra sé framleiðsla vopna. Þessu trúa Bandaríkjamenn ekki og hafa á síðastliðnum vikum haft í frammi stöðugt þyngri gagnrýni á írönsk stjórnvöld. Hamid Reza Asefi, talsmaður utanríkisráðuneytis Írans, sagði á blaðamannafundi í gær að stjórnvöld í Bandaríkjunum stefndu að því að auka spennu í samskiptum Írans og Vesturlanda. Íranar óttast að Bandaríkjamenn hyggi á hernaðaraðgerðir gegn landinu. Íran er aðili að samningi gegn útbreiðslu kjarnorkuvopna. Stjórnvöld þar telja sig hafa allan rétt til að þróa kjarnorkutækni til rafmagnsframleiðslu og neita að falla frá þeim áformum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×