Erlent

Lítil hafmeyja í Perú

Hún hefur fengið viðurnefnið litla hafmeyjan og hefur heillað landa sína í Perú upp úr skónum. Þessi litla stúlka er í þann mund að leggjast undir skurðhnífinn í aðgerð sem mun breyta lífi hennar. Milagros Cerros er níu mánaða mikið fötluð stúlka. Hún þjáist af því sem er kallað sirenomelia eða hafmeyjarheilkennið og skýringin er augljós. Fætur Milagros eru samvaxnir, engu er líkara en hún sé með sporð. Þetta er afar sjaldgæft og þeir eru fáir sem fæðast með þetta heilkenni sem lifa lengur en eina viku. Reyndar er talið að aðeins þrír í heiminum öllum séu með svipaða fötlun. Nafnið Milagros þýðir enda kraftaverk. Læknar í Perú eru nú að undirbúa skurðaðgerð til að aðskilja fæturna á Milagros en það er í fyrsta sinn sem slíkt er reynt. Þeir eru bjartsýnir á árangur því litla stúlkan er hress og flest líffæri hennar starfa eðlilega. Luis Rubio læknir segir að hreyfigeta stúlkunnar, sálfræðilegt ástand og þroski sé eðlilegur miðað við stúlku á hennar aldri. Það sé gott og muni hjálpa læknunum við aðgerðina. Milagros fer undir hnífinn í lok mánaðarins en aðgerðin fer fram í nokkrum hlutum. Hún verður meira eða minna undir læknishendi næstu árin því eftir að búið er að aðskilja fæturna þarf að snúa þeim fram og laga kynfærin. Sara Arauco, móðir Milagros, segist trúa því að stelpan sín komist í gegnum erfiðleikana og að hún verði alheil og eðlileg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×