Erlent

Óttast að neyðarfé sé sóað

Á Srí Lanka aukast áhyggjur af því að neyðarhjálp í formi fjár sé sóað í dularfull verkefni og í vasa spilltra stjórnmála- og embættismanna. Stjórnvöld í Kólombó vilja sem minnst segja um hvernig fénu er varið og halda samtökum og héraðsstjórnum fjarri þeirri ákvarðanatöku. Víða með fram suður- og austurströnd landsins hefur lítil sem engin hjálp borist en á sama tíma hafa stjórnvöld greint frá því að miklar uppbyggingaráætlanir hafi þegar verið gerðar. Þær hafa hins vegar ekki verið gerðar opinberar en Reuters komst yfir eintak af þeim hugmyndum sem uppi eru og samkvæmt þeim eiga um 40 prósent þess fjár sem borist hefur að fara í umferðarmannvirki, nýja þjóðvegi og lestarteina. Mun minna á að berast þeim byggðarlögum sem verst urðu úti. Yfirmaður alþjóðasamtakanna Transparency International á Srí Lanka segir hættu á spillingu í tenglsum við dreifingu fjárins, en talsmenn stjórnvalda segja þau orð einungis áróður stjórnarandstöðunnar. Í Aceh-héraði í Indónesíu vilja stjórnvöld nú að erlendir herir, sem veitt hafa neyðarhjálp, hverfi hið fyrsta á braut. Bandaríkjaher hefur verið í fararbroddi í neyðaraðstoð, einkum við flutninga neyðargagna í þyrlum eftir vesturströndinni þar sem landleiðin er algjörlega ófær. Hjálparstarfsfólk segir nánast vonlaust að koma hjálpargögnum til skila án hjálpar hersveita og að enn séu nokkur einangruð byggðarlög án hjálpar. Engu að síður vilja stjórnvöld losna við erlenda hermenn sem fyrst, en það mun koma illa við kauninn á mörgum að hafa vestræna hermenn í fjölmennasta múslímaríki heims.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×