Sport

Pistons vann Magic, Hill hylltur

Grant Hill og félagar hans í Orlando Magic, háðu harða baráttu við Detroit Pistons á útivelli í NBA-körfuboltanum í nótt. Hill, sem lék með Pistons áður en hann hélt til Orlando, náði ekki að koma í veg fyrir sigur Pistons, 101-94. Þetta var í fyrsta sinn sem Hill lék í búningi andstæðingsins í Detroit eftir að hann hætti hjá liðinu árið 2000. Áhorfendur risu úr sætum og hylltu kappann þegar hann var kynntur fyrir leikinn. "Ég var alveg í skýjunum og reyndar kom þetta mér mjög á óvart," sagði Hill. "Það var góð orka í höllinni en ég hefði viljað eiga betri leik. En við sjáum til þegar við mætumst á nýjan leik í næstu viku." Richard Hamilton var stigahæstur Pistons með 26 stig en Chauncey Billups skoraði 19 stig og gaf 9 stoðsendingar. Steve Francis var stigahæstur Orlando Magic með 31 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar. "Við vorum með 17 stiga forystu eina stundina og hún var komin niður í sjö stig á svipstundu," sagði Larry Brown, þjálfari Pistons. "Við lærðum af því hér í kvöld að góð lið bíta frá sér." Liðin mætast að nýju á þriðjudaginn kemur á heimavelli Orlando.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×