Lífið

Hatturinn hans Dúdda á uppboði

Söfnunin Neyðarhjálp úr Norðri nær hámarki klukkan 19:40 í kvöld þegar sjónvarpsstöðvarnar Skjár Einn, Stöð 2 og Sjónvarpið senda allar út þennan söfnunarþátt til styrktar fórnarlömbum flóðbylgjunnar í Asíu. Vilhelm Anton Jónsson er einn stjórnenda þáttarins en með honum verða þau Gísli Marteinn frá Sjónvarpinu og Brynhildur frá Stöð 2. "Í þættinum verður fullt af tónlistarmönnum og þekktu og skemmtilegu fólki sem kemur fram. Sigur Rós mun taka nýtt lag, strákarnir í 70 mínútum verða með innslag, Stuðmenn koma fram auk þess sem Bubbi og Björgvin Halldórsson taka lagið saman." Villi sér meðal annars um þann hluta þáttarins þegar frægir munir verða boðnir upp. "Á uppboðinu er árituð treyja frá Eiði Smára, hatturinn hans Dúdda sem varð frægur í myndinni Með Allt á Hreinu, teinóttu jakkafötin hans Björgólfs, Bjarkar-svanakjóllinn sem Ólafía Hrönn klæddist í áramótaskaupinu, frakkinn sem Pálmi Gunnars klæddist í undankeppni Eurovision á Rúv þegar hann flutti Gleðibankann í fyrsta sinn og gítarinn hans Bubba sem hann notaði þegar hann samdi lögin á plötunni Sögur af Landi." Uppboðið er nú þegar farið í gang og getur fólk hringt í síma: 847-0060 til þess að bjóða í hlut. Lágmarksupphæð er hundrað þúsund. "Einnig munum við tala við fólk sem var úti í Asíu þegar hörmungarnar dundu yfir. Það verður svo nóg af óvæntum uppákomum og þetta verður umfram allt skemmtilegur þáttur, það er gaman að hjálpa!" Í þættinum gefst landsmönnum kostur á að hringja í söfnunarsíma og verður fénu varið til neyðaraðstoðar og uppbyggingar á hamfarasvæðunum á næstu árum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.