Lífið

Boða svita og geðveiki

Í Fókus sem fylgir DV á föstudögum er alltaf Djammkortið að finna. Þar eru viðburðir helgarinnar útlistaðir og allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hvort sem þú ert fimmtugur Kópavogsbúi eða tvítug miðbæjarrotta. Í kvöld eru til dæmis rokktónleikar á Grandrokk. Þar stíga á stokk þrjár hljómsveitir og þar á meðal er rokkbandið Changer. Hljómsveitin Changer nýtur mikillar hylli rokkunnenda á Íslandi. Hún byrjaði á Akureyri í nóvember 1999. Til að byrja með var hún eins manns hliðarverkefni trommarans Kristjáns. Árið 2000 flutti Kristján svo til Reykjavíkur og fékk gítarleikarana Jóa og Hudson til liðs við sig. Svo bættist söngvarinn Magnús við hópinn og seinast fullkomnaði bassaleikarinn Berti svo grúppuna. Bandið hefur verið að spila í þessari mynd síðan 2001. Í febrúar á seinasta ári kom svo fyrsta plata þeirra félaga, Scenes, út. Hana er hægt að finna í öllum betri plötubúðum landsins. Changer spilaði á Airwaves á dögunum og gekk dúndurvel. Strákarnir lofa mikilli stemningu á tónleikunum á morgun. Þeir láta ekki margt slá sig út af laginu og hafa meira að segja spilað án bassaleikarans þegar hann fannst ekki. "Já, já við spiluðum bara samt og það var allt í lagi. Við höfum samt ekki ennþá fengið haldbærar skýringar á þessu skrópi hans," segir Kristján og hlær. Í kvöld verða strákarnir að spila á Grandrokk ásamt rokkböndunum Drep og Denver. Það verður sviti á veggjum og geðveiki í gangi. Tónleikarnir byrja klukkan 23 og það kostar 500 kall inn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.