Lífið

Setja Saumastofuna sjálf upp

Fókus fylgir með DV í dag. Þar er ítarleg úttekt á skemmtanalífinu um helgina. Á djammkortinu er að finna alla staði miðbæjarins og úthverfanna, hvernig stemmningin er og hvað er að gerast. Á sunnudaginn verður leikritið Saumastofan frumsýnt í Borgarleikhúsinu. Nokkrir leiklistarkrakkar tóku sig saman og uppfærðu 30 ára gamalt verk að nýjum tíma. "Við erum ekki að setja upp leikrit um réttindi kvenna. Við viljum sýna áhorfendum skemmtilegan vinnustað með alls konar steríótýpum," segir Alexía Björg Jóhannesdóttir. Hún er einn af sjö ungum leikurum sem frumsýna Saumastofuna eftir Kjartan Ragnarsson á litla sviði Borgarleikhússins á sunnudaginn. Saumastofan sló í gegn í Iðnó fyrir þrjátíu árum en þá snerist verkið að miklu leyti um kvenréttindabaráttuna. Nú leiddi leikstjórinn Agnar Jón Erlingsson leikhópinn hinsvegar í spuna og heimildarvinnu til að taka persónur og málefni verksins til nútímans. Þetta er því nýtt leikrit með skírskotun til eldra verks Kjartans. Við undirbúning sýningarinnar kynntu leikararnir sér m.a. vinnuaðstöðu ýmissa kvenna í þjóðfélaginu. Alexía fékk að sitja í löggubíl eina föstudagsnótt. "Ég leik vaktstjórann Fjólu Rós, sem er algjör trukkur. Þess vegna langaði mig að eyða tíma með hörkukvensum. Það var frábært og ég sá ýmislegt með þessum svaka löggukonum, sem kalla ekki allt ömmu sína. Ég kynntist líka blíðu hliðinni á þeim." Mörg laganna úr gamla verkinu eru notuð en textarnir uppfærðir í samræmi við nýtt starfsfólk Saumastofunnar nú 30 árum síðar. Búðabandið sér um melódísku hlið sýningarinnar. Leikhópurinn samanstendur af Alexíu, Bjartmari Þórðarsyni, Bryndísi Ásmundsdóttur, Elmu Lísu Gunnarsdóttur, Guðjóni Þorsteini Pálmarssyni, Maríu Pálsdóttur og Ísgerði Elfu Gunnarsdóttir. Ísgerður er aðalsprautan. Fékk þá flugu í höfuðið að setja upp sýninguna og sankaði að sér fólki. Þ.á.m. systur sinni Gunnhildi, sem framleiðir sýninguna. Afganginn af viðtalinu við Alexíu og Saumastofukrakkana má finna í Fókus í dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.