Innlent

Grænmetisframleiðslan í óvissu

Að öllu óbreyttu stórhækkar verð á rafmagni til garðyrkjubænda um næstu mánaðamót. Unnið er að lausn málsins því verði ekki að gert mun grænmetisframleiðsla í landinu leggjast af. Með nýju raforkulögunum, sem tóku gildi um áramót, falla niður þeir afslættir sem grænmetisbændur hafa notið en rafmagn er einn dýrasti liður framleiðslunnar. Vinna við að athuga hvernig hægt er að koma til móts við framleiðendur er nýhafin en að henni koma fulltrúar garðyrkjubænda, landbúnaðarráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og orkufyrirtækjanna. Gömlu taxtarnir áttu að falla úr gildi um áramót en hafa verið framlengdir út janúarmánuð. Verði ekkert að gert hækkar raforkuverð framleiðenda um 30 til 100 prósent, allt eftir því hvað og hvernig menn rækta. Helgi Jóhannesson, formaður Sambands garðyrkjubænda, segist bjartsýnn á farsæla lausn málsins en bendir á að óvissan sé óþægileg. Ómögulegt sé að þróa greinina eða gera framtíðarplön á meðan óvissa um svo veigamikið atriði ríkir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×