Innlent

Á fjórða þúsund lagt fram fé

Á fjórða þúsund manns hefur lagt fram fé í söfnun Þjóðarhreyfingarinnar til að birta afsökunarbeiðni til íröksku þjóðarinnar í bandarísku dagblaði vegna stuðnings Íslands við innrásina í Írak. Þrátt fyrir gagnrýni á Gallup-könnun um hug þjóðarinnar til þess stuðnings verður niðurstöðum hennar gert hátt undir höfði. Heilsíðuauglýsing Þjóðarhreyfingarinnar mun birtast í The New York Times í þarnæstu viku. Birtingin kostar um 2,8 milljónir króna og við þá upphæð bætist kostnaður vegna vinnu og kynningarstarfs. Söfnunin mun standa í viku til viðbótar og gera forsvarsmenn hreyfingarinnar sér vonir um að í heildina muni um fjögur þúsund Íslendingar hringja í söfnunarsímann 90-20000. Þjóðarhreyfingin hefur verið harðlega gagnrýnd og liðsmenn hennar hafa meðal annars verið kallaðir föðurlandssvikarar og landráðamenn. Enn aðrir telja að auglýsingin muni beina sjónum hryðjuverkamanna að landinu. Ráðamenn þjóðarinnar hafa séð um þá kynningu að mati Hans Kristjáns Árnasonar, ábyrðarmanns söfnunarinnar. Davíð Oddsson hafi auglýst á blaðamannafundi með Bush, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu 6. júlí að allt gengi vel í Írak og Íslendingar væru stoltir af því. Heimurinn væri friðvænlegri eftir aðgerðirnar í Írak. Niðurstöðum síðustu Gallup-könnunar á viðhorfi þjóðarinnar til stuðnings við innrásina í Írak hefur nú verið bætt inn á auglýsinguna þrátt fyrir að bæði forsætis- og utanríkisráðherra hafi gagnrýnt framkvæmd hennar. Hans segir það fáránlegt. Fólkið í landinu sé ekki fífl. Hann spyr af hverju hver einasta skoðanakönnun frá því fyrir innrásina hafi sýnt að mikill meirihluti þjóðarinnar sé algjörlega á móti aðgerðunum í Írak. „Heyra þessir menn ekki neitt?“ spyr Hans..



Fleiri fréttir

Sjá meira


×