Erlent

Einn látinn í óveðri í Danmörku

Óveðrið sem nú gengur yfir Danmörku hefur kostað eitt mannslíf. Ökumaður fórst þegar tré féll ofan á bíl við Ålykkeskóg í Óðinsvéum, að því er lögreglan í bænum greinir frá. Heimavarnarlið hefur verið kallað út lögreglunni til aðstoðar til að loka svæðinu. Spáð hefur verið 20-28 metrum á sekúndu og að vindhraði geti farið upp í allt að 40 metra á sekúndu í verstu hviðunum. Mikið álag hefur verið á neyðarnúmerinu 112 vegna tilkynninga um fallin tré og rafmagnstaura og fjúkandi þaksteina og þakplötur um allt land. Lögregla bendir fólki á að tilkynna slíkt til næstu lögreglustöðvar en nota 112 aðeins í brýnustu neyð. Seinkun hefur orðið á lestarsamgöngum um alla Danmörku og hefur ferjusiglingum víða verið frestað til morguns. Stórabeltisbrúin er lokuð og varað er við að stórum og léttum farartækjum sé ekið um brúna yfir Litlabelti. Óttast er að veðurhamurinn verði jafn mikill ef ekki meiri en 3. desember 1999 þegar miklar skemmdir urðu í ofsaveðri í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×