Lífið

Hrapandi plötusala Kristjáns

Fyrsta plata óperusöngvarans Kristján Jóhannssonar í sex ár, Portami Via, seldist í aðeins 2.300 eintökum hjá útgefanda fyrir þessi jól. Síðasta plata Kristjáns hér á landi, Helg eru jól, seldist í um 8.000 eintökum fyrir jólin 1998. Hefur hún í dag selst í um það bil 10 þúsund eintökum samkvæmt upplýsingum frá útgáfufyrirtæki Kristjáns, Skífunni. Vanalega hafa plötur Kristjáns selst í rúmlega 10 þúsund eintökum hér á landi og því hlýtur gengi nýju plötunnar að valda honum og Skífunni miklum vonbrigðum. "Við höfum ekki hugmynd um hversu mikið platan seldist því skilin eru ekki komin inn. En platan hefur örugglega selst minna en væntingar stóðu til," segir Eiður Arnarsson, útgáfustjóri Skífunnar. Hann tekur það fram að platan hafi komið seint út hér á landi, þann 1. desember, og því verið í stuttan tíma á markaðnum. Vitaskuld hafi lætin í kringum Kristján þó einnig haft sitt að segja varðandi þessa dræmu sölu. Miðað við skilatölur sem birtast um miðjan þennan mánuð má búast við að eintökunum 2.300 eigi eftir að fækka umtalsvert. Venjulega er 5-10% eintaka af plötum skilað aftur frá búðum til útgefenda eftir jól og miðað við þau læti sem voru í kringum Kristján er ekki ólíklegt að sú prósentutala verði hærri í hans tilviki. Portami Via hafði selst í um það bil 1.500 eintökum áður en hann kom fram í Kastljósi til að svara ásökunum sem komu í kjölfar tónleika í Hallgrímskirkju þar sem hann söng til styrktar krabbameinssjúkum börnum. Eftir það hægðist mikið á sölunni og má telja líklegt að platan endi í tæpum 2.000 eintökum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.