Innlent

Þúsund fermetrar ónotaðir

Þúsund fermetrar í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur standa auðir og ónotaðir. Þetta stendur til bóta, segir forstjórinn, en stofnanir Reykjavíkurborgar munu leigja húsnæðið af Orkuveitunni.  Í fyrradag kom í ljós að bygging nýja Orkuveituhússins fór 32 prósent fram úr áætlun. Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, sagði meðal annars að byggingin hefði stækkað miðað við upphaflegar áætlanir og væri um þúsund fermetrum stærri en gert hefði verið ráð fyrir í upphafi. Auk þess hefði þurft að bæta heilu loftræstikerfi við. Og þessi þúsund aukafermetrar standa enn auðir. Um er að ræða tvær fimm hundruð fermetra hæðir og er ætlunin að hverfamiðstöð Árbæjar leigi aðra þeirra og skrifstofur ÍTR fari í hina. Hvoru tveggja eru stofnanir á vegum borgarinnar. Guðmundur Þóddsson, forstjóri Orkuveitunnar, segir að Orkuveitan stækki stöðugt, á svæði hennar bætist við fimm þúsund manns á ári þannig að pláss þurfi til framtíðar. Aðspurður hvort ekki væri kostnaðarsamt að láta svo stórt húsnæði standa autt sagði Guðmundur að það yrði ekki kostnaðarsamt ef það væri leigt út en það væri kostnaðarsamara að þurfa að flytja of snemma eða fara að dreifa starfseminni um bæinn vegna plássleysis í Orkuveituhúsinu. Það væri mikilvægt að geta tekið við aukinni starfsemi þegar fram liðu stundir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×