Innlent

Samstarf um vistun sjúklinga

Samstarf hefur tekist með Landspítala - háskólasjúkrahúsi og St. Franciskusspítala Stykkishólmi í vistunarmálum og umönnun hjúkrunarsjúklinga, samkvæmt viljayfirlýsingu forstöðumanna stofnananna. Markmiðið er að stuðla að betri nýtingu sjúkrarúma beggja stofnana með því að sjúklingum sem bíða eftir hjúkrunarrými á LSH verði boðin dvöl á SFS í umsaminn tíma. Gert er ráð fyrir því að allt að fimm rúm verði til tímabundinna afnota fyrir sjúklinga frá LSH á St. Franciskusspítala sem bíða eftir hjúkrunarheimilisvist. Auk þessa er um að ræða tvö pláss fyrir lengri vistun. Jafnréttis- og sjálfsákvörðunarákvæði í lögum um aldraða verða virt í hvívetna og þeir því ekki lagðir inn á SFS sem eru mótfallnir dvöl þar. Einstaklingar með einkenni heilabilunar verða heldur ekki vistaðir á SFS þar sem þeir eiga rétt til vistar á sérhæfðum deildum sem ekki eru þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×