Lífið

Minningarsjóður stofnaður

Guðlaugur Bergmann framkvæmdastjóri lést hinn 27. desember 2004. Hann verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag klukkan 13.00. Guðlaugur Bergmann var um árabil umsvifamikill kaupsýslumaður og iðnrekandi í Reykjavík. Hann stofnaði verslunina Karnabæ og rak saumastofu í tengslum við hana. Verslunin var lengi í fararbroddi í tískufatnaði ungs fólks. Guðlaugur lét líka ýmis þjóðþrifamál til sín taka og var gjarnan ómyrkur í máli. Fjölskylda hans hefur stofnað um hann Minningarsjóð. Markmið sjóðsins er að styrkja verkefni í umhverfis- og samfélagsmálum, en þau áttu hug og hjarta Guðlaugs síðustu árin. Hann hafði sem verkefnisstjóri unnið ötullega að því að undirbúa sveitarfélögin á Snæfellsnesi undir vottun Green Globe 21, en öðrum áfanga í því ferli var náð í nóvember sl. þegar sveitarfélögin fengu formlega viðurkenningu á því að hafa mætt viðmiðum Green Globe 21. Guðlaugur hafði talað um það við fjölskyldu sína að hann óskaði þess helst að sín yrði minnst fyrir starf sitt að umhverfismálum, því hann taldi þau vera eitt mikilvægasta verkefni sem núverandi kynslóð gæti tekist á við. Sjóðurinn var í upphafi kynntur undir kennitölu dánarbúsins en hefur nú fengið eigin kennitölu. Þeim sem vilja minnast frumkvöðulsins Gulla Bergmann, sem alltaf lagði alla sína krafta í þau verkefni sem áttu hug hans hverju sinni, er bent á Minningarsjóðinn. Reikningsnúmer sjóðsins er: 1143 18 640230 kt. 430105-2130.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.