Skoðun

Merkileg ferð í Efra-Breiðholt

Ljósmyndasýning - Sigmundur D Gunnlaugsson, Englandi Fyrir skömmu fór ég á ljósmyndasýningu Ara Sigvaldasonar, fréttamanns, Fólk með augum Ara. Þótt Ari sé mér að góðu kunnur, og þekktur fyrir innsæi og mikla skemmtigáfu, verð ég að játa að sýningin kom mér töluvert á óvart. Myndirnar eru afar skemmtilegar á ýmsan hátt, listrænar, fróðlegar og spaugilegar í senn. Orð lítillar stúlku sem skoðaði sýninguna með foreldrum sínum, á meðan ég var þar, segja allt sem segja þarf. Þar sem þau voru á leiðinni út sagði hún við móður sína, ,"Mér hefur aldrei áður fundist svona gaman á einhverri svona sýningu" Tónninn var eins og hún væri að lýsa alveg nýrri og óvæntri lífsreynslu, enda orðið,"sýning" sagt með fyrirlitningartón. Það ætti því að vera óhætt að taka börnin með en á sama stað eru fleiri ágætar sýningar, sumar ætlaðar börnum, og ókeypis inná þær allar. Staðurinn er menningarmiðstöðin í Gerðubergi í Efra-Breiðholti. Sá borgarhluti er ekki í alfraleið og ég hef fyrir satt að margir borgarbúar, ekki hvað síst úr hópi þeirra sem búa vestan Kringlumýrarbrautar, hafi aldrei þangað komið og þekki svæðið aðeins úr fréttum og þeim sögum sem ganga meðal Vesturbæinga um lífið í Breiðholtshæðum. Ég þekki mann úr Seljahverfinu í Breiðholti sem gerði sér ferð uppí Efra-Breiðholt til að kynnast staðháttum af eigin raun. Hann snéri aftur undrandi og sagði sögur af því sem fyrir augu hafði borið og að sér hefði fundist eins og hann væri kominn til útlanda. Landkönnuðurinn kvaðst ætla að fara aftur þarna uppeftir með myndavél. Það er því tilvalið fyrir borgarbúa að fara á sýninguna og sjá fólk með augum Ara og framandi veröld með eigin augum í leiðinni. Það er ódýr útlanda- og menningarferð og eftirminnileg reynsla. Auðvelt er að finna Gerðuberg en það stendur við hringveginn sem liggur í gegnum hverfið. Hverfið sjálft er auðfundið á korti t.d. í símaskránni. Menn skyldu þó hafa hraðann á því að sýningunni lýkur 9. janúar.



Skoðun

Skoðun

Hvað er verið að leið­rétta?

Gabríel Ingimarsson,Sverrir Páll Einarsson,Alexander Hauksson,Ingvar Þóroddsson,María Ellen Steingrimsdóttir,Oddgeir Páll Georgsson,Ingunn Rós Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×