Innlent

Samningar 100 þúsund manns í hættu

Fjögurra manna nefnd Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins reynir nú að ná saman um viðbrögð við breyttum forsendum kjarasamninga sem tóku gildi í ársbyrjun 2004. Greinir nefndarmenn á um viðbrögð. ASÍ hefur lagt til að laun verði hækkuð í samræmi við hækkun verðbólgu umfram það sem gert var ráð fyrir, eða ­tveggja­­ prósenta hækkun, en SA hafnar því alfarið.

Forsendunefndinni ber að skila niðurstöðum fyrir 15. nóvember. Ef nefndin kemst ekki að niðurstöðu um viðbrögð verða samningar sendir til stéttarfélaga, sem taka munu ákvörðun um hvort segja eigi þeim upp og hvort boða eigi til verkfalla. Alls er um að ræða samninga nær hundrað þúsund manns, þótt stöðugildin séu ekki jafnmörg en af þeim eru 65 þúsund manns innan ASÍ, tíu þúsund manns utan ASÍ á SA samningum og tuttugu þúsund ríkisstarfsmenn, að sögn Ara Edwald, framkvæmdastjóra SA.

"Samningar sem snúa að nær 100 þúsund manns yrðu í uppnámi," segir Ari. "Uppsögn samninga hefðu þau áhrif á þetta fólk að það fengi ekki samningsbundnar hækkanir um áramótin. Samningar yrðu lausir og það yrði háð viðræðum og ákvörðunum félaganna til dæmis um verkfallsboðanir hvað úr yrði," segir hann.

Ari telur að uppsögn samninga hefði í för með sér mjög erfiða stöðu því forsendur í atvinnulífinu hafi breyst til hins verra frá síðustu samningum. "Ef atvinnulífið væri að ganga til samninga í dag væri það ekki tilbúið að taka á sig eins miklar kostnaðarhækkanir og það gerði í síðustu samningum. Samningarnir hlytu því að verða mjög erfiðir ef til þeirra kæmi," segir Ari.

Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, segir að sambandið sé að undirbúa sig fyrir uppsögn samninga. "Ef samningar eiga að halda þarf að koma til kúvending í stefnu ríkisstjórnar og atvinnurekenda," segir Kristján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×