Innlent

Ekki hróflað við bensínstyrk

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra er hættur við að afnema 700 milljóna króna bensínstyrk öryrkja og aldraðra.
Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra er hættur við að afnema 700 milljóna króna bensínstyrk öryrkja og aldraðra.

Svonefndur bensínstyrkur öryrkja og aldraðra verður ekki afnuminn eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra lýsti þessu yfir í utandagskrárumræðum á alþingi í gær um fjölgun og stöðu öryrkja.

Um 4000 ellilífeyrisþegar og 2650 öryrkjar njóta styrksins að óbreyttu en hann nemur um 700 milljónum króna. "Ég mun leggja þetta til við aðra umræðu fjárlaga. Þetta verður því óbreytt og áform um að taka 400 milljónir króna í bætur og 100 milljónir króna í starfsendurhæfingu eru þar með úr sögunni. Að auki var gerð krafa um 200 milljóna króna hagræðingu og það mál þarf að meðhöndla sérstaklega," segir Jón Kristjánsson.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, þakkaði heilbrigðisráðherra og kvað breytta afstöðu stjórnvalda vera til marks um að lýðræðið virkaði. "Hefði heilbrigðisráðherra gætt samráðs um þessa hugmynd hefði hann aldrei sett hana fram í upphafi," sagði Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×