Erlent

Þjóðverjar fá einir þjóða að reka herstöð í Úsbekistan

Þjóðverjar fá að halda áfram rekstri herstöðvar sinnar í Úsbekistan, ólíkt öðrum NATO-þjóðum. Á dögunum lýstu stjórnvöld í Úsbekistan því yfir við fjölmörg þeirra ríkja sem eru með hersveitir í landinu að þau fengju ekki áframhaldandi leyfi fyrir slíku, en Úsbekistan hefur meðal annars landamæri að Afganistan. Þá fá umrædd ríki, en þar á meðal eru Bandaríkin, ekki heldur að fljúga um lofthelgi landsins. Skýringin á þessu er rakin til þess að andað hefur köldu á milli Vesturlanda og Úsbekistans frá því hundruð almennra borgara féllu fyrir byssukúlum úsbekskra hermanna síðastliðið vor þegar þeir mótmæltu stjórn landsins á götum úti. Engar skýringar liggja hins vegar fyrir á því hvers vegna Þjóðverjar fá, einir þjóða, að halda herliði sínu áfram í landinu, en BBC greinir frá því að ein skýringin sé þó talin vera velvildin sem sé á milli Rússa og Þjóðverja, en samskiptin milli Úsbeka og nágrannanna í Rússlandi hafa farið sífellt batnandi undanfarin misseri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×