Viðskipti innlent

Fjórtán tilboð bárust í Símann

Verði fimm prósent verðmunur eða minni á tilboðum hæstu bjóðenda verður viðkomandi aðilum gefinn kostur á að skila inn nýju og hærra verðtilboðið síðar sama dag. Þau tilboð verða opnuð samdægurs í viðurvist fjölmiðla og bjóðenda. Berist ekki ný tilboð frá bjóðendum standa upphafleg tilboð. Sá sem býður hæst eftir þetta ferli fær fyrstur tækifæri til að undirgangast viðræður um kaup á fyrirtækinu á grundvelli kaupsamnings, sem þá þegar mun liggja fyrir og kynntur verður öllum bjóðendum fyrirfram. Með þessu vill einkavæðingarnefnd freista þess að fá sem hæst verð fyrir Símann. Þetta kemur fram í grein sem Jón Sveinsson, formaður einkavæðingarnefndar, skrifar í Markaðinn í dag. Frestur til að skila inn óbindandi tilboðum í Símann rann út í gær. Jón segir í greininni að upplýsingar um fjölda bjóðenda verði gefnar í dag, en nöfn bjóðenda verði ekki gefin upp fyrr en að lokinni yfirferð tilboða. Þá verður bjóðendum, sem uppfylla ákveðin skilyrði, boðið að gera bindandi tilboð. Jón gerir ráð fyrir að lok skilafrest bindandi tilboða verði í lok júlí, en fjöldi bjóðenda ráði þar miklu. Við mat á bindandi kauptilboðum á síðara stigi söluferlisins verður fyrst og fremst litið til verðs. Minnst tveimur vikum áður en bindandi tilboð eru lögð fram þurfa bjóðendur að mynda hópa kjölfestufjárfesta, sem þurfa að samanstanda af minnst þremur óskyldum aðilum. Jón segir við það miðað nú að samningar um sölu á eignarhlut ríkisins í Símanum og greiðsla kaupverðs, sem fram fari í einu lagi, verði að fullu lokið seint í júli eða í fyrri hluta ágústmánaðar. Allir sitja við sama borð og jafnræði sé gætt. "Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur lagt sig fram um að haga öllum söluundirbúningi með faglegum, trúverðugum og málefnalegum hætti," segir Jón í greininni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×