Sport

Bowyer talar til stuðningsmanna

Lee Bowyer virðist vera mikið í mun að fá stuðningsmenn Newcastle aftur á sitt band eftir slagsmálin við félaga sinn Kieron Dyer um síðustu helgi. "Ég sé svo mikið eftir atburðum helgarinnar að ég get mér ekki heilum tekið. Ef það væri eitthvað sem ég gæti gert til að bæta fyrir það sem ég gerði, myndi ég að sjálfssögðu gera það, en það eina sem ég get gert er að biðja stuðningsmennina afsökunar. Mér fannst eins og ég væri loksins búinn að vinna þá á mitt band, en ég veit ekki hvað þeir gera núna. Mér skilst að ég sé búinn að skora ein 16 mörk í Evrópukeppninni með Newcastle og Leeds samanlagt, en ég myndi vilja skipta á þeim öllum fyrir að skora í leiknum í kvöld," sagði Bowyer aumur í samtali við fjölmiðla í dag. Leikmanninum virðist ekki hafa hugkvæmst að lofa stuðningsmönnum sínum að lofa að haga sér eins og maður framvegis, sem sjálfsagt er það eina sem hann getur gert, fyrir utan það að gera eins vel og hann getur inni á leikvellinum. Hitt verður svo að koma í ljós hvort stuðningsmenn liðsins fyrirgefa honum axarsköftin og taka hann í sátt á ný.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×