Þyrlu Landhelgisgæslunnar var snúið við um klukkan þrjú eftir að hafa verið kölluð til að sækja slasaðan vélsleðamann. Björgunarsveitarmenn úr Björgunarsveitinni Stefáni úr Mývatnssveit töldu ekki nauðsynlegt að fá þyrlu á staðinn eftir að þeir mátu ástand mannsins og ákváðu sjálfir að koma honum undir læknishendur. Talið er að maðurinn sé slasaður á olnboga. Upphaflega tilkynnti lögreglan á Húsvík um vélsleðaslys nálægt Dettifossi um klukkan hálfþrjú en þá hafði einn þeirra sem var með þeim slasaða í för keyrt í símasamband til að tilkynna um slysið. Áhöfn þyrlunnar var á æfingu með Slysavarnarskóla sjómanna þegar hún var kölluð út.