Erlent

Átök milli Ísraela og Palestínumanna fara enn harðnandi

Ísraelski flugherinn skaut ellefu eldflaugum í tveimur sprengjuárásum á Gaza í nótt. Ekki er vitað um mannfall en átök fara enn harðnandi milli þjóðanna.

Árásin kemur í kjölfar sprengjuárásar Palestínumanna á ísraelsku borgina Ashkelon á dögunum. Palestínumenn sprengdu nálægt rafmagns og eldsneytisleiðslum borgarinnar. Samkvæmt yfirvöldum í Palestínu, eyðilögðu sprengjur Ísraelsmanna fjölda vega á Gaza svæðinu. Í tilkynningu frá ísraelska hernum, sem send var út í morgun, kemur fram að markmið hersins hafi verið að gera her Palestínumanna erfitt fyrir að komast að landamærum og skjóta eldflaugum þaðan yfir til Ísraels. Engan hafi átt að drepa enda markmið Ísraela fyrst og fremst að verjast hryðjuverkamönnum. Erfiðlega virðist ætla að ganga að koma á friði milli þjóðanna tveggja. Stjórnmálaskýrendur sögðu fyrr á árinu þegar um níu þúsund Ísraelar yfirgáfu Gaza að friðarviðræður myndu fara að ganga betur. Palestínumenn sögðu þá hins vegar búast við að Ísraelar myndu yfirgefa enn fleiri landnemasvæði en það tóku Ísraelar ekki í mál. Árásum landanna tveggja á hvort annað hefur verið að fjölga að undanförnu, eftir annars tiltölulega rólegan tíma, og virðist sem fátt muni komi í veg fyrir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×