Innlent

12 ára gamalt námskeið lífsbjörg

Tólf ára gamalt skyndihjálparnámskeið varð manni í hjartastoppi til lífs. Maðurinn, sem sýndi rétt viðbrögð á neyðarstundu með hetjulegri framgöngu, var valinn skyndihjálparmaður ársins í dag.  Það sem Anton Gylfi Pálsson hafði lært á skyndihjálparnámskeiði árið 1992 rifjaðist upp fyrir honum á svipstundu þegar hann bjargaði Ásgeiri Sigurðssyni með því að hnoða og blása lífi í hann. Ásgeir hafði fengið hjartastopp eftir að hafa verið áhorfandi á handboltaleik og Anton kom að honum þar sem hann sat í bifreið sinni á þess að sýna lífsmark. Anton segir að við umræddar aðstæður hafi honum liðið eins og hann hafi setið námskeiðið fyrir 30 mínútum. Í dag þakkar hann Guði fyrir að hafa farið á það. Anton segist hafa brotnað saman kvöldið sem þetta gerðist og að hann hafi verið um hálfan mánuð að ná sér. Ásgeir kveðst allur vera að braggast og verði útskrifaður af Reykjalundi eftir þrjár vikur. Talið er að um 200 Íslendingar látist skyndilega vegna hjartastopps á hverju ári. Jafnvel aðeins fjögurra mínútna töf eftir að hjarta manns hefur stöðvast getur kostað hann lífið. Tilgangurinn með því að velja skyndihjálparmann ársins er ekki síst sá að hvetja aðra til að læra skyndihjálp. Þess má geta að Rauði krossinn býður upp á slík námskeið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×