Innlent

Háskólalistinn í oddastöðu

Háskólalistinn komst í oddastöðu í stúdentaráði Háskóla Íslands í kosningum á fimmtudag. Vaka, sem fyrir kosningarnar var með meirihluta í stúdentaráði, tapaði einum manni og fékk fjóra kjörna. Röskva bætti hins vegar við sig manni og fékk því einnig fjóra menn kjörna og Háskólalistinn hélt sínum manni og komst því í oddastöðu. Alþýðulistinn fékk engan mann kjörinn en hafði hugsanlega úrslitaáhrif í kosningunum. Framboðið fékk hundrað atkvæði og tók ef til vill fylgi frá Vöku sem vantaði um 25 atkvæði til að koma fimmta manninum inn. Háskólalistinn hefur boðað að hann hyggst ekki mynda meirihlutastjórn með Vöku eða Röskvu. "Við höfum alltaf lagt áherslu á að okkur finnst fáránlegt að hagsmunasamtök eins og stúdentaráði sé skipt í meirihluta og minnihluta," segir Elías Jón Guðjónsson talsmaður listans. Elías segir að nú hafi myndast færi til að draga úr flokkadráttum á milli fylkinga og mynda almennilega samstöðu innan stúdendaráðs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×