Innlent

Brýnt að skoða verðtryggingu lána

Gísli Tryggvason. Eitt af forgangsmálum hjá embætti talsmanns neytenda er að skoða markaðssókn gagnvart börnum og unglingum og segir Gísli að þeirri markaðssókn verði hugsanlega settar hömlur með reglugerð.
Gísli Tryggvason. Eitt af forgangsmálum hjá embætti talsmanns neytenda er að skoða markaðssókn gagnvart börnum og unglingum og segir Gísli að þeirri markaðssókn verði hugsanlega settar hömlur með reglugerð.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, telur mikilvægt að skoða verðtryggingu lána með tilliti til hagsmuna neytenda og er það eitt af þeim málum sem hann hefur sett í forgang hjá embættinu. Einnig hyggst Gísli skoða á næstunni gjöld í bankakerfinu, umgjörð fasteignamarkaðarins, markaðssókn gagnvart börnum og unglingum og fleiri mál sem tengjast neytendum.

Þetta kom fram í erindi sem Gísli hélt á félagsvísindatorgi Háskólans á Akureyri í gær en þar kynnti hann embætti talsmanns neytenda sem sett var á fót 1. júlí síðastliðinn, á grunni laga sem samþykkt voru á Alþingi í vor. Gísli segir of snemmt að fullyrða að svo komnu máli að hagsmunum neytenda væri betur borgið ef verðtrygging lána væri afnumin en hann telur rétt að skoða það vel.

"Menn hafa bent á að gegnsæi og valfrelsi séu á meðal mikilvægustu réttindamála neytenda og verðtrygging er hvorki gegnsæ né valfrjáls," segir Gísli.

Embætti talsmanns neytenda er með aðsetur hjá Neytendastofu en tilgangur embættisins er að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda, ásamt því að stuðla að aukinni neytendavernd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×