Innlent

Hótaði að bana barnsmóður sinni

Maðurinn réðst á lögreglu með hnífi og hótaði barnsmóður sinni lífláti.
Maðurinn réðst á lögreglu með hnífi og hótaði barnsmóður sinni lífláti.

Tæplega fertugur karlmaður var dæmdur til eins og hálfs árs fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag. Ákæruefni er hótanir, meðal annars í garð barnsmóður, líkamsárás á lögregluþjón og eignaspjöll.

Landssamband lögreglumanna sendi í gær frá sér tilkynningu þar sem harmað er hversu væga refsingu héraðsdómur hefði ákveðið. Lögreglumenn telja að með þessum dómi fái brotamenn þau skilaboð að ekki teljist alvarlegt að ráðast á lögreglumenn. Landssambandið telur einsýnt að með þessu sé bæði öryggi lögreglumanna og almennings stefnt í hættu. Þetta þykir lögreglumönnum vera ólíðandi ástand.

Maðurinn hafði hótað barnsmóður sinni lífláti með textaskilaboðum. "Hæ, ef þú leyfir mér ekki að sjá börnin aftur þá skal ég skjóta þig í hausinn, 2. eða 3. desember og þá ertu dauð og ég líka og þá eiga börnin ekki pabba eða mömmu bæ bæ," sagði í skilaboðunum.

Einnig bar hann bréf í hús í Reykjavík þar sem hann hótar enn lífláti. "Ef hún hringir ekki í mig næsta föstudag þá ert þú dauður. Ég á kúbein og klippur og haglabyssu og ég nota þetta næstu helgi ef hún hringir ekki í mig næsta föstudag," stóð í einu bréfanna.

Við handtöku í júní lagði hann svo til lögreglumanns með hnífi, tvívegis í nárann.

Í dóminum segir að með þessari háttsemi hafi maðurinn stofnað lífi lögreglumannanna í hættu á augljósan og ófyrirleitinn hátt og tilviljun hafi ráðið að ekki hlutust alvarlagir áverkar af.

Maðurinn hefur átt við geðhvarfa- og áfengissýki að stríða en þegar litið var til vottorða frá læknum þótti dóminum ástæða til að ætla að hann væri sakhæfur og telur geðlæknir að hann geri greinarmun á réttu og röngu. Í dómnum er litið til þess að í lögum sé gert ráð fyrir að fangelsis­yfirvöldum sé heimilt að vista fanga á sjúkrastofnun ef þurfa þyki enda eigi fangar rétt á að njóta viðeigandi heilbrigðisþjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×