Erlent

Fannst tveim mánuðum eftir skjálftann

MYND/AP

Kona fannst á lífi í húsarústum í Pakistan, tveimur mánuðum eftir að jarðskjálfti, sem reið yfir Kasmírhérað, lagði hús hennar í rúst. Læknar segja kraftaverk að konan skuli vera á lífi.

Leit var löngu hætt á svæðinu og voru ættingjar konunnar hættir að leita að henni. Konan drakk rigningarvatn, sem seytlaði niður til hennar, og borðaði rotna ávexti sem hún náði til og varð það henni til lífs. Konan, sem heitir Naqsha Bibi liggur nú á sjúkrahúsi í borginni Muzaffarabad og segja læknar kraftaverk að hún sé á lífi. Bibi sem er fertug að aldri, var í 63 daga grafin undir húsarústum í þorpinu Kamsar en hún fannst þegar frændi hennar og fleiri menn voru að róta í rústunum í leit að nálægu byggingarefni og var hún með meðvitund. Það er danski læknirinn Martin Nørgaard sem meðhöndlar hana og sagði hann í samtali við danska fjölmiðla í dag að nánast ómögulegt væri að lifa af aðstæður sem þessar í svo langan tíma þrátt fyrir að hafa vatn. Hann hafi aldrei orðið vitni að öðru eins og að ekki væri ólíklegt að um einsdæmi væri að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×