Innlent

Börnin í Gínea-Bissá styrkt

Baugur Group hefur undanfarið ár styrkt verkefni Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) í Gíneu-Bissá. Styrkurinn nemur 20 milljónum króna og er það hæsti styrkur sem íslenskt fyrirtæki hefur veitt til eins þróunarverkefnis. Megintilgangur verkefnisins er að draga úr ungbarnadauða í landinu en þriðja hvert barn þar nær ekki fimm ára aldri. Um 440 börn njóta góðs af verkefninu og miða forsvarsmenn þess að því að bæta heilsugæslu barnanna, veita þeim næringu og félagslegan stuðning og vernda þau gegn misnotkun. Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, er nýkominn frá Gíneu-Bissá en hann segir verkefnið hafa mjög mikla þýðingu í landinu því það er sárafátækt. "Þar fyrir utan styðja fá lönd við bakið á Bissáum og því hafði okkar heimsókn mikla þýðingu fyrir landið enda var vel tekið á móti okkur." Verkefnið mun standa yfir í eitt ár í viðbót.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×