Viðskipti innlent

Hóparnir vinna saman

Þeir tveir aðilar sem skráð hafa einstaklinga sem vilja kaupa hlut í Símanum, hafa ákveðið að vinna saman og leita nú samstarfs. Agnes Bragadóttir segir enga stóra fjárfesta hafa gert formlegt tilboð, en hún á allt eins von á að fjárfestar muni slást um að vera með almenningi í tilboðshópi. Ingvar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Logiledger, setti af stað skráningu á vefsíðu fyrirtækisins á þriðjudaginn og höfðu á annað þúsund manns skráð sig fyrir einum og hálfum milljarði króna í gærkvöldi. Nú er Ingvar kominn í samstarf við hóp Agnesar. Þau hittust seint í gærkvöldi og voru fljót að komast að samkomulagi, enda hafa hóparnir nákvæmlega sömu markmið að sögn Agnesar. Agnes leggur áherslu á að þeir sem hafi skráð sig hafi eingöngu lýst yfir áhuga, en ekki sé um að ræða formleg hlutafjárloforð. Þau er ekki hægt að skrá fyrr en eftir að hlutafélagið hefur verið stofnað og segir hún að það verði gert í næstu viku. Viðurkennd fjármálastofnun verður fengin til að taka að sér umsýslu og vörslu á peningunum sem berast inn og þar verða þeir geymdir þar til í ljós kemur hvort hópurinn fær að vera með í lokaslagnum eða ekki. Samstarf þarf við tvo stóra fjárfesta. Aðspurð hvort fjárfestar, bankar eða önnur fyrirtæki hafi leitað til þeirra með formleg tilboð um samstarf segir Agnes svo ekki vera, heldur öfugt.  Hún vonast hins vegar eftir því að það verði vinsælt og líklegt til árangurs að vera í tilboðshópi með almenningi. Þess má geta að Agnes var rétt hálfnuð að fara í gegnum þau þrjú hundruð tölvupóstskeyti sem biðu hennar í morgun.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×