Innlent

Ný tækni rýmkar mengunarkvóta

Mörg Evrópuríki geta rýmkað mengunarkvóta sína verulega þegar ný tækni sem næstum eyðir allri koltvísýringsmengun frá kolaorkuverum verður tekin í notkun. Áhrifin á Íslandi verða líklega óveruleg nema ef til vill í formi aukinnar samkeppni á orkusviðinu - og minni gróðurhúsaáhrifa. Sænska orkufyrirtækið Vattenfall er að hefja byggingu stórs kolaorkuvers í austurhluta Þýskalands sem á að verða koltvísýringslaust eftir fimmtán ár. Koltvísýringnum er þjappað saman og dælt á vökvaformi í berglög þaðan sem gas eða kol hafa áður verið tekin. Þetta getur breytt miklu fyrir lönd þar sem meirihluti orkunnar er framleiddur með kolum og olíu. Þór Tómasson efnaverkfræðingur segir að löndin geti hugsanlega minnkað sína koldíoxíðnotkun sína um 50 prósent. Ef öll framleiðsla á rafmagni og hita fyrir húshitun og iðnað, sem fari fram í kola- eða olíuorkuverum, gangi upp með þessum hætti geti löndin sett koltvísýringinn í jörðina þannig að losunarkvóti landanna verði mun rýmri. En þýðir þetta að orkuverin okkar gætu lent í samkeppni við kolaorkuver þar sem eigendurnir fara að geta auglýst þau mengunarlaus? Þór segir að menn hætti aldrei alveg að menga. Kolaorkuverin fari úr því að menga óhemjumikið yfir í það að menga ekki svo mikið. Eitthvað af koltvísýringi fari alltaf út í andrúmsloftið en á móti komi að vatnsaflsver eða jarðhiti hér á landi mengi líka alltaf eitthvað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×