Viðskipti innlent

Verðstríð lægir verðbólgu

Verðbólgan á ársgrundvelli er nú 4,7 prósent en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,75 prósent milli febrúar og mars. Þetta er heldur minni verðbólga en spáð hafði verið. Hækkun vísitölu neysluverðs er minni en búist var við, meðal annars vegna verðlækkunar á matvörumarkaði, og segir í tilkynningu frá Hagstofu að þetta megi rekja til verðstríðs sem nú geisar á matvörumarkaði. Það sem hefur mest áhrif til hækkunar á vísitölunni er hækkað húsnæðisverð en verð á fatnaði hækkaði einnig þó nokkuð milli mánaða og er það rakið til þess að útsölum er víðast hvar lokið. Verð á fatnaði hækkaði um 12,2 prósent milli mánaða. Greiningardeild KB banka sendi frá sér skýrslu um stöðu efnahagsmála á miðvikudag þar sem bankinn endurskoðaði verðbólguspá sína og hækkaði hana. Nú spáir KB banki að verðbólgan verði 6,2 prósent yfir árið. Það er töluvert fyrir ofan þolmörk Seðlabankans. Í Hálf fimm fréttum KB banka í gær kom einnig fram að þótt verðbólgan mældist nú 4,7 prósent á ársgrundvelli væri verðbólga án húsnæðis aðeins 2 prósent. Það er hins vegar þensla á fasteignamarkaði sem vegur langþyngst um hækkun vísitölunnar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×