Erlent

20 þúsund uppreisnarmenn ganga lausir

Minnst þrjátíu manns létust og fjörutíu slösuðust í enn einni sjálfsmorðsárásinni í Írak í morgun. Tuttugu þúsund uppreisnarmenn ganga enn lausir í Írak þrátt fyrir að bandarískar og írakskar hersveitir hafi handsamað og drepið þúsundir uppreisnarmanna undanfarið ár.

Árásin í morgun átti sér stað inni í rútu í höfuðborginni Baghdad. Árásarmaðurinn gekk hlaðinn sprengiefni inn í rútuna, sem var á leiðinni frá höfuðborginni, og sprengdi sig í loft upp inni í miðri rútunni. Sprengingin var mjög öflug og rútan gjöreyðilagðist í árásinni.

Fréttatímaritið Time hefur eftir stjórnendum innan bandaríska hersins að uppreisnarmönnum virðist frekar vera að fjölga en hitt. Nú séu líklega um tuttugu þúsund manns í röðum uppreisnarmanna í Írak. Það er er síst minni fjöldi en áætlaður var fyrir ári og virðast því stórtæk áhlaup bandarískra og írakskra hersveita á vígi uppreisnarmanna hvað eftir annað hafa skilað takmörkuðum árangri.

Heimildarmenn Time segja að á sama tíma og meira en þúsund uppreisnarmenn hafi verið handsamaðir, virðist einfaldlega enn fleiri hafa bæst í hópinn. Vandamálið er einkum við landamæri Sýrlands, þaðan sem langflestir uppreisnarmennirnir koma. Þar hafa hersveitir ítrekað farið inn í borgirnar Qaim, Kusaiba og Tal Afar og svælt burtu alla uppreisnarmenn að sögn Bandaríkjahers. Það virðist hins vegar engu skipta, því jafnharðan bætist í hópinn.

Undanfarið hafa uppreisnarmenn gert um sjötíu árásir á hverjum degi í Írak. Stjórnvöld þar búast við að sú tala muni hækka snarlega á næstu dögum, í aðdraganda þingkosninga sem fara fram í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×