Erlent

Fórnarlamba minnst við Indlandshaf

Mánuði eftir flóðbylgjuna í Indlandshafi var þeirra sem fórust minnst í morgun, en víða er ástandið enn svo bágborið að engar athafnir fóru fram. Reynt er eftir fremsta megni að koma lífinu í gang á ný, en milljóna sem hafast við í tjaldbúðum bíður óviss framtíð. Skólastarf í Aceh-héraði á Súmötru hófst á ný í dag, mánuði eftir að flóðbylgja gekk þar yfir og olli gríðarlegri eyðileggingu. Skólabörn grétu mörg þegar þau mættu í skólana sína á ný og báðu fyrir þeim sem fórust. Talið er að 45 þúsund skólabörn séu meðal þeirra sem fórust í hamförunum. Í höfuðborginni Banda Aceh er ástandið enn slæmt í helmingi borgarinnar, sem þurrkaðist nánast út. Sá helmingur er nánast draugabær, rústir eins langt og augað eygir og þeir einu sem þar eru á ferð eru að safna þar skrani. Í hinum helmingi borgarinnar gengur lífið sinn vanagang. Þar má vart sjá að nokkuð hafi gerst. Kaffihúsin eru troðfull en greinilegt er að fólk er slegið vegna hamfaranna og hörmunganna. Alls eru 220 þúsund talin af eða þeirra saknað í Indónesíu. Á Srí Lanka söfnuðust hundruð saman á sjálfstæðistorginu í Kólombó til að minnast þeirra sem fórust, en utan höfuðborgarinnar er ástandið víða svo slæmt að þar var ekki tímabært að halda minningarathafnir. Fólk hefst við í tjöldum og veit ekki enn hvað bíður þess. Milljón börn eru til að mynda enn án heimilis og ekkert útlit fyrir að það breytist í bráð. Þau hafast við í bráðabirgðaskýlum og þiggja mat frá hinu opinbera. Nú er mánuður liðinn frá hamförunum og börnin hafa ekkert fengið nema hrísgrón og linsubaunir og óttast er að verði ekkert að gert fari næringarskortur að gera vart við sig fljótlega. Þá er drykkjarvatn einnig af skornum skammti og hreinlæti mjög ábótavant.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×