Erlent

Skriður kominn á friðarferlið

Skriður virðist kominn á friðarferlið í Miðausturlöndum. Báðum megin borðsins virðist vilji til að vinna að friðsamlegri lausn deilna Ísraela og Palestínumanna og það að því er virðist sem fyrst. Fulltrúar palestínskra og ísraelskra stjórnvalda hittust í morgun á fundi, degi eftir að Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, aflétti banni á viðræður við Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, og stjórn hans. Sharon greindi frá sinnaskiptum sínum skömmu áður en sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjaforseta kom til Ísraels, þar sem honum er ætlað að endurvekja friðarvegvísinn svokallaða. Shimon Peres, aðstoðarforsætisráðherra Ísraels, sagði fyrir fundinn í morgun að þar ætti einkum að ræða fyrirhugað brotthvarf Ísraelshers frá Gasaströndinni. Fundurinn var stuttur en viðræðum verður haldið áfram innan skamms og er stefnt að leiðtogafundi Abbas og Sharons hið fyrsta, að sögn Saebs Erekats, eins ráðgjafa Abbas. Palestínskar öryggissveitir munu dreifa sér um alla Gasaströndina innan sólarhrings í kjölfar þess að samkomulag tókst við ísraelska hershöfðingja. Fyrir helgi var lögreglumönnum á svæðinu fjölgað í von um að klekkja á skæruliðum og senda Ísraelsmönnum skilaboð um að nýjum herrum á sjálfsstjórnarsvæðunum væri alvara þegar friðarferlið væri annar vegar. Í morgun komu lögreglumenn sér fyrir á suðurhluta Gasastrandarinnar, skammt frá leiðinni að landnemabyggð gyðinga sem hefur verið vinsælt skotmark skæruliða. Frá því að Abbas tók við embætti forseta fyrr á þessu ári virðist sem gjörbreyting hafi orðið í samskiptum Ísraelsmanna og Palestínumanna. Í stað ávirðinga, árása og hryðjuverka virðist nú sem vilji sé til að leggja niður vopn og leita friðsamlegra lausna og það sem fyrst, hugsanlega í ljósi þess að óvíst er að harðlínumenn í báðum fylkingum séu fúsir að sætta sig við viðræður í stað aðgerða mjög lengi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×