Sport

Magnús til Grindavíkur

Sóknarmaðurinn Magnús Þorsteinsson skrifaði í gær undir þriggja ára samning við Landsbankadeildarlið Grindavíkur en hann hefur leikið allan sinn feril með Keflavík. Magnús, sem er 22 ára gamall, var laus undan samningi við Keflavík en hafði reyndar verið gerður brottrækur af Guðjóni Þórðarsyni, þjálfara liðsins, sem fannst hann ekki leggja nógu hart að sér við að fá sig góðan af meiðslum sem hafa hrjáð hann. Magnús sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að hann hefði fundið fyrir miklum áhuga frá Grindavík og ekki skemmdi fyrir að hann þekkti þjálfara Grindavíkur, Milan Stefán Jankovic, vel frá því að hann þjálfaði í Keflavík. "Ég þekki Milan vel og veit að hann hefur trú á mér. Mér líst vel á þetta verkefni og ætla að standa mig á nýjum stað," sagði Magnús sem viðurkenndi að hann kveddi Keflavík með söknuði. "Allir mínir vinir eru úr Keflavík en málin þróuðust þannig að ég gat ekki verið þarna. Það er auðvitað hundfúlt að kveðja félagið á þessum nótum en lítið sem er hægt að gera í því. Það er í það minnsta öruggt að ég mun ekki spila aftur með Keflavík á meðan Guðjón er við stjórnvölinn, ekki eftir þessa framkomu," sagði Magnús. Keflvíkingar hafa látið að því liggja að Magnús hafi snúið til baka úr meiðslum nokkrum kílóum þyngri en áður en hann vísaði því alfarið á bug. "Ég viðurkenni að ég bætti aðeins á mig en ég hef verið með einkaþjálfara frá áramótum og er að komast í gott form. Ég verð klár eftir tíu daga og er staðráðinn í því að festa mig í sessi sem alvöruleikmaður í efstu deild." Magnús Þorsteinsson með Keflavík 1999 Efsta deild 2/0 2000 Efsta deild 8/1 2001 Efsta deild 17/2 2002 Efsta deild 18/2 2003 1. deild 18/12 2004 Efsta deild 11/0



Fleiri fréttir

Sjá meira


×