Innlent

Slys á börnum algengari á Íslandi

Slys á ungum börnum í heimahúsum eru algengari hér á landi en í nágrannalöndunum. Velferðarsjóður barna á Íslandi hefur látið gera tíu upplýsinga- og fræðslumyndir í því skyni að fækka slysum á börnum.  Lífslíkur ungbarna á Íslandi eru mestar í heiminum sem rekja má til góðrar mæðra- og ungbarnaverndar. Þrátt fyrir það stöndum við nágrannaþjóðum okkar að baki þegar kemur að slysum barna í heimahúsum. Á árinu 2003 var leitað til læknis vegna slysa um 1400 barna og höfðu flest þeirra slasast í heimahúsum. Nú hefur Velferðasjóður barna í samstarfi við Lýðheilsustöð og Tryggingamiðstöð Íslands farið af stað með verkefni til þess að laga þessa þróun. Meðal annars hafa verið gerð tíu myndbönd í því augnamiði að fækka slysum hjá börnum. Myndböndunum er ætlað að minna forráðamenn á þau atriði sem oftast valda slysum, svo sem eitranir, brunar, föll, köfnun og drukknun. Sérstaklega er ætlunin að vekja athygli foreldra og forráðamanna barna sem eru yngri en fjögurra ára á þeim slysahættum sem leynast víða á heimilum og í næsta umhverfi barnanna. Myndirnar, sem bera nafnið „Pössum börnin betur“, verða sýndar á hérlendum sjónvarpsstöðvum á næstu vikum. Þar munu ýmsir þjóðkunnir einstaklingar koma fram. Sýningum á myndunum verður síðan fylgt eftir með blaðagreinum og frekari fræðslu í fjölmiðlum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×