Viðskipti innlent

Hlutabréf aldrei hærri

Úrvalsvísitalan náði hæstu hæðum í gær þegar hún endaði í 3.957 stigum. Fyrra metið var sett 8. október 2004 þegar hún endaði í 3.947 stigum. Mestu munaði um að hlutabréf í KB banka og Burðarási, tveggja stærstu hluthafanna í breska bankanum Singer & Friedlander, hækkuðu skarpt. Tilkynnt var um að stjórnir Singer & Friedlander og KB banka hefðu hafið viðræður um mögulega yfirtöku KB banka á breska bankanum. "Markaðurinn hefur verið á stöðugri siglingu frá því fyrir áramót þannig að þetta var spurning um hvenær en ekki hvort að þessum áfanga yrði náð," segir Atli B. Guðmundsson sérfræðingur í greiningardeild Íslandsbanka. Hækkun Úrvalsvísitölunnar frá áramótum er nú átján prósent en það er miklu meiri hækkun en flestir sérfræðingar gerðu ráð fyrir að yrði á öllu árinu. Sjö félög í Úrvalsvísitölunni hafa hækkað um meira en tuttugu prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×