Lífið

Jamie Kennedy hló að vondum dómi

Bandaríski leikarinn og uppistandsgrínarinn Jamie Kennedy kemur við sögu í Ópinu í Sjónvarpinu í kvöld en hann heimsótti þáttinn daginn áður en hann flaug heim eftir vel heppnaða Íslandsheimsókn. Þóra Tómasdóttir tók á móti Kennedy þegar hann mætti í Efstaleitið og leysti hann út með göf sem hitti heldur betur í mark hjá kappanum. "Við gáfum honum innrammaðan dóm sem sýningin hans á Broadway fékk í Morgunblaðinu en dómurinn var vægast sagt neikvæður," segir Þóra sem hafði jafnframt látið snara því allra harkalegasta úr umsögninni yfir á ensku svo það færi ekkert fyrir ofan garð og neðan hjá Kennedy hvað gagnrýnandanum fannst um sýninguna. "Honum fannst þetta mjög fyndið og fullyrti að hann myndi hengja hann upp á vegg heima hjá sér í Los Angeles." Ísleifur Þórhallsson, sem flutti Kennedy til landsins, var ekki jafn hress með Moggadóminn og hyggst svara honum á prenti, ekki síst þar sem upplifun gagnrýnandans virðist alveg á skjön við meirihluta áhorfenda sem hlóu dátt að Íslandsgríni Kennedys. Ísleifur staðfestir þó að Kennedy hafi þótt þetta uppátæki svo sniðugt að hann hafi ekki skilið rammann við sig og hafi haft hann undir hendinni þegar hann fór um borð í flugvélina sem flutti hann heim til Bandaríkjanna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.