Erlent

Fjárlagafrumvarpið í uppnámi

Hvorki gengur né rekur að berja saman nýtt fjárlagafrumvarp fyrir Evrópusambandið. Forsætisráðherra Bretlands segir að náist ekki samkomulag í næstu viku, varpi það stórum skugga á Evrópusambandið.

Bretar reyna nú hvað þeir geta til að ná sáttum um fjárlagafrumvarp fyrir árin 2007 til 2013 áður en þeir gefa eftir forsæti í Evrópusambandinu um árámótin. En þær sáttir eru alls ekki í augsýn. Þrátt fyrir að þeir hafi boðist til að gefa eftir sjötíu milljarða árlega af endurgreiðslum sínum frá Evrópusambandinu, hafa kröfur þeirra um að aðrir gefi líka eftir fallið í grýttan jarðveg. Fátækari þjóðir sambandsins mega ekki heyra á það minnst að dregið verði úr styrkjum til þeirra og Frakkar neita að gefa eftir himinháa landbúnaðarstyrki.

Tony Blair sagði í gær að Bretar myndu ekki gefa eftir. Þeir væru búnir að sýna sáttarhug með því að gefa eftir hluta af endurgreiðslunum og nú yrðu aðrir að gera slíkt hið sama. Blair minntist sérstaklega á landbúnaðarstyrkina og sagði ljóst að sátt myndi aldrei nást nema Frakkar brytu odd af oflæti sínu og gæfu eftir hluta af styrkjunum. Fyrstu viðbrögð frá stjórnvöldum í Frakklandi eru vægast sagt dræm og fátt bendir til að þeir komi til móts við Breta í bráð.

Leiðtogar ESB funda í næstu viku og það er síðasta alvöru tækifærið til að ná sátt um fjárlagafrumvarpið fyrir áramót.

Blair segir að takist það ekki varpi það skugga á sambandið og dragi verulega úr möguleikunum á frekari stækkun sambandsins á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×