Innlent

Starfsfólkið með súrefnisgrímur

Eigandi kaffishússins Prikið á Laugarveginum er æfur vegna fyrirhugaðs reykingabanns á veitingastöðum. Í lok vikunnar var lagt fram frumvarp þess efnis á Alþingi. "Ég vil fá að hafa reykingarfólk inni á Prikinu" segir Guðfinnur Sölvi Karlsson, eigandi Priksins. "Ef það er fyrst og fremst verið að banna reykingar vegna áhrifanna sem þær geta haft á starfsfólk staðanna af hverju má ég þá ekki bara leyfa mínu starfsfólki að vera með súrefnisgrímur. Það þekkist í mörgum atvinnugreinum. Fjölmargir málarar og múrarar nota slíkar grímur." Guðfinnur Sölvi segir að fyrirhugað reykingarbann muni bitna verst á kaffihúsunum. "Mikið af gestunum kemur á þau til að fá sér kaffi og sígarettu. Ég geri mér grein fyrir því að ef bannið verður að veruleika mun það jafna sig út á nokkrum mánuðum. Ég er bara ekki viss um að staðirnir þoli það að lenda í einhverri niðursveiflu í nokkra mánuði því þetta er viðkvæmur rekstur. Í staðinn fyrir að banna reykingar þætti mér nær að setja reglur um að til dæmis fjórði hver staður eigi að vera reyklaus eða eitthvað í þá áttina."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×