Innlent

Hægt að rýma miðbæinn á 20 mínútum

Það gæti tekið á aðra klukkustund að rýma miðbæ Reykjavíkur ef öryggi fólks þar væri ógnað þar sem ekki er til nein rýmingaráætlun. Væri hún til tæki aðeins innan við tuttugu mínútur að rýma miðborgina á menningarnótt. Aldrei áður hefur annar eins mannfjöldi safnast saman á Íslandi og á síðustu Menningarnótt í miðbæ Reykjavíkur, yfir eitt hundrað þúsund manns. Engin rýmingaráætlun er til og ef eitthvað kemur upp á, svo sem hópslagsmál, hryðjuverkahótun eða árás, eiturefnaslys eða eldsvoði svo dæmi séu tekin, gæti rýming tekið hátt á aðra klukkustund. Þetta vandamál reyndu tveir nemendur í iðnaðarverkfræði að leysa og unnu nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrir vikið. Þeir gerðu líkan sem líkir eftir rýmingaraðstæðum í mannmergð í miðbænum. Björn Björnsson, annar neminn sem vann að verkefninu, segir að í upphafi hafi þeir látið fólk ganga að þeim útgönguleiðum í líkaninu sem styst var í og þá hafi rýmingin tekið um klukkustund. Eftir að þeir hafi beint fólki að vissum útgönguleiðum sem þeir hefðu talið bestar hafi hins vegar tekist að stytta tímann um 55 prósent eða í 20 mínútur. Svo ef fólk veit hvert það á að fara gengur allt betur. Svona virkar líkanið. Í upphafi eru 40 þúsund manns í miðbænum. Eftir fimm mínútur eru vegfarendur rúmlega 25 þúsund, etir tíu mínútur eru þeir rúmlega 10 þúsund og eftir 15 mínútur eru aðeins tæplega þúsund manns eftir á svæðinu. Á innan við tuttugu mínútum er rýmingu lokið ef fólki er leiðbeint hvert það á að fara. Björn segir hægt að leiðbeina fólki með því að hengja upp borða eða auglýsa í blöðum og á Netinu í upplýsingum tengdum stórhátíðum. Þetta líkan er svo hægt að nota til hliðsjónar við gerð allsherjarrýmingaráætlunar fyrir miðbæinn. Björn segir aðeins tímaspursmál hvenær grípa þurfi til slíkrar áætlunar. Í fyrirsjáanlegri framtíð muni þurfa að rýma miðbæinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×