Innlent

Líffærabiðlistar lengjast hratt

Aðstandendur látinna verða sífellt tregari til að leyfa að líffæri þeirra séu tekin til ígræðslu samkvæmt íslenskri rannsókn. Biðlistar eftir líffærum í heiminum lengjast hratt og fleiri látast meðan þeir bíða en hinir sem fá ígræðslu. Greint er frá nýrri íslenskri rannsókn í Læknablaðinu þar sem fylgst var með tilhögun við líffæragjafir á gjörgæsludeild í Fossvogi á árunum 1992 til 2002. Aðstandendur fimmtíu einstaklinga voru spurðir um leyfi tiil þess að nema mætti burt líffæri úr hinum látna til að nota til ígræðslu. Leyfið fékkst í þrjátíu tilfellum. Þar af voru tekin líffæri hjá tuttugu og sex. Frá árinu 1991 hafa verið lög í gildi á Íslandi um skilgreiningu á heildadauða og brottnám líffæra sem gerir landsmönnum kleift að vera líffæragjafar eftir andlát sitt, eftir að þeir hafa verið skilgreindir heildauðir en haldið á lífi með vélum þannig að líffæri fái áfram súrefni. Áður en lögin voru sett voru Íslendingar þiggjendur hjá Norrænu Ígræðslustofnuninni.. Að meðaltali bíða um sjö manns eftir líffærum á Íslandi, en einungis þrír hafa fengið grædd í sig líffæri að meðaltali á sama tímabili. Þrátt fyrir þetta gætu íslenskar líffæragjafir annað eftirspurninni hérna heima. Framboðið er örlítið meira hjá samstarfsaðilum okkar á hinum Norðurlöndunum, með tilliti til höfðatölu en þar er eftirspurnin einnig meiri. Það vekur athygli að fleiri Íslendingar höfnuðu því að líffæri væru tekin úr látnum ástvinum eftir því sem leið á tímabilið, en ekki var spurt um ástæður þess að því var neitað og því liggur skýringin ekki á lausu. Aðstandendur rannsóknarinnar benda á að ósamræmi sé milli almennrar afstöðu í samfélaginu til líffæragjafa en mikill meirihluti lýsir sig fylgjandi slíkum gjöfum. Bent er á að aðstandendur fylgi vilja hins látna til líffæragjafa nær undantekningarlaust liggi hún fyrir en því miður sé það í undantekningartilfellum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×