Innlent

Fimm aðilar keppast um háskólatorg

Hús Háskóla Íslands verða tengd saman í sérstakt háskólatorg sem fimm útvalin fyrirtæki keppast um að hanna. Kynningarfundur með þeim hófst í morgun. Fimm aðilar hafa verið valdir til að keppa um hönnun torgsins og hafa þeir um fjóra mánuði til að vinna frumtillögur að hönnun bygginganna. Í lok september verður tilkynnt um hvaða tillaga verður valin. Háskólatorgið mun tengja saman ýmsar byggingar á háskólasvæðinu en þar er gert ráð fyrir að nemendur og starfsmenn hafi vinnuaðstöðu. Með torginu sameinast ýmsar þjónustustofnanir undir einu þaki, s.s. námsráðgjöf, nemendaskrá, Félagsstofnun stúdenta og Stúdentaráð. Auk þess er gert ráð fyrir fyrirlestrasölum, kennslustofum, rannsóknarstofum og tölvuveri á torginu. Félagsstofnun stúdenta mun standa undir 20 prósent af kostnaði verksins og verður bygging félagsstofnunarinnar við Hringbraut seld. Háskóli Íslands mun selja fasteignir við Aragötu og Oddagötu til að standa straum af framkvæmdunum en stærsta framlagið kemur frá Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands sem leggur hálfan milljarð króna til verksins. Gert er ráð fyrir að háskólatorgið verði vígt í árslok árið 2007.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×